Ég gekk í Pírata nokkrum mánuðum eftir stofnun flokksins og hef verið virkur í starfi hans síðan; hef haldið námskeið um tengslanet, unnið í stefnumótum og skipulagt fundi og uppbyggingu á landsbyggðinni. Ég uppgötvaði takið sem Píratar hafa á hjarta mínu í vor þegar ég lenti í tilfinningalegri rússíbanareið, átti andvökunótt yfir mögulegum illdeilum innan flokksins, en varð svo ofsaglaður daginn eftir þegar leyst var úr málum með þroskuðum og ábyrgum hætti. Í dag eru Píratar fyrir mér öflug pólitísk menning með opið ólgandi hjarta – hreyfing með annan fótinn í framtíðinni og hinn í nútímanum.

Í gegnum tíðina hef ég rekist illa í íslenskri pólitík, verið mest í smáflokkum með hálf útópíska sýn á hlutina, á milli þess að gæla við hefðbundna vinstri pólitík sem hefur þó aldrei passað mér mjög vel. Eins og illa prjónuð peysa sem er allt of víð en með of stuttar ermar. Anarkíski húmanistinn í mér hefur iðað af óþoli undan forræðishyggju, þjóðernisíhaldi og þeim skorti á trú og trausti á fólki sem viðgengst svo gjarnan á vinstri vængnum en enginn valkostur í boði um frjálslyndi fyrir utan pólitík gegnsýrða af sérhagsmunum og frjálshyggju, sérsniðna fyrir fjármagnseigendur. Þegar Píratar komu til sögunnar upplifði ég loks ferskan, frjálslyndan og alþjóðlegan andblæ í íslenskri pólitík hjá flokki sem stóð með almenningi í landinu – ég var kominn heim.

Í upphafi sá ég Pírata fyrir mér sem stjórnmálaafl sem með hóflegu fylgi gæti hægt og bítandi haft umtalsverð áhrif á stjórnmálamenningu á Íslandi. Efnahagshrunið 2008 opinberaði hins vegar pólitíska kreppu sem núverandi kerfi hefur reynst ófært um að taka á, aðallega vegna þess að það er sjálft hluti vandans. Sá einlægi og trúverðugi tónn sem kjörnir fulltrúar hafa slegið varð þá til þess að stór hluti þjóðarinnar hefur valið okkur til að taka á þeirri krísu. Sú lausn sem við bjóðum er róttæk kerfisbreyting sem felst aðallega í að koma í gegn nýrri stjórnarskrá stjórnlagaráðs sem þjóðin samþykkti 2012. Með þeirri lýðræðisbyltingu sem í henni felst fær almenningur tæki og tól til að útkljá stór mál sem haldið hefur verið í gíslingu af úr sér gengnu stjórnmálakerfi, mál eins og staða okkar í Evrópu, mynt og auðlindir landsins.

Eins og ég nefndi fyrr þá hef ég komið víða við í pólitík en mín pólitík hefur lítið breyst. Hún snýst fyrst og fremst um mannréttindi, jafnrétti og jafnræði, í víðasta skilningi þessara hugtaka. Þannig er lýðræðiskrafan mannréttindakrafa – það eru mannréttindi að hafa áhrif á líf sitt og umhverfi. Kosning á fjögurra ára fresti á 21. öld eru mjög takmörkuð lýðræðisleg áhrif miðað við það samfélag sem við búum í og þá möguleika sem það býður. Brýnasta þörfin fyrir jafnréttisbaráttu snýr í mínum huga ekki síður að innflytjendum en að jafnrétti kynjanna. Jafnræðiskrafan gerir kröfu um jafna möguleika á aðgangi að auðlindum landsins, sem Píratar vilja tryggja m.a. með markaðslausnum, ekki síst í sjávarútvegi. Þá tengist hugtakið um sjálfbæra þróun jafnræði – jafnræði gagnvart komandi kynslóðum hvað varðar aðkomu og aðgengi að náttúruauðlindum þessarar jarðar.

Meira en 20 ár eru liðin síðan ég skrifaði fyrst um beint lýðræði – nokkuð sem hlaut ekki mikinn hljómgrunn á þeim tíma. Núna er til staðar sögulegt tækifæri til að taka skref í þá átt, inn í pólitík 21. aldar. Ný stjórnarskrá leysir ekki öll mál en gefur okkur tækifæri til að útkljá mörg þeirra stærstu sem standa í veginum í dag. Ég vil ekki láta mitt eftir liggja til að nýta þetta sögulega tækifæri sem við höfum og gef þess vegna kost á mér í prófkjöri Pírata í Reykjavík fyrir komandi alþingiskosningar.