„Ég er mjög sáttur við missi atkvæða rasistanna, eða annarra sem aðhyllast einangrunarhyggju, atkvæði þeirra sem trúa á einfaldar popúlískar lausnir í stað kerfisbreytinga og breyttrar aðferðarfræði, atkvæði þeirra sem þora ekki að líta til framtíðarinnar og ríghalda í fortíðina. Ég vil atkvæði hinna – þeirra sem vilja hið gagnstæða.“

 

Eftir síðustu alþingiskosningar lagðist ég í dálitla naflaskoðun og gerði upp mánuðina á undan. Ég hafði varið miklum tíma í málefnavinnu, greinaskrif og prófkjör og batt miklar vonir við að hægt væri að gera þýðingarmiklar, löngu tímabundnar breytingar á íslensku samfélagi. Framhaldið þekkja allir. Ég fann fyrir ákveðnu tómi – var ekkert að efast um að ég væri á réttum stað í pólitík, stefnu- og málefnalega er píratisminn eins og vel sniðin flík fyrir mig. Það var frekar eins og slagkrafturinn í sjálfum mér og samfélaginu öllu væri búinn, skriðþunginn sem Hrunið setti af stað myndi fjara frekar út á næstu fjórum árum og nýja góðærið vagga þjóðinni þýðlega í svefn.

Ég gat með góðri samvisku litið í spegilinn hvað varðar tíma og orku sem ég setti í starfið árin fyrir kosningar – engin spurning. Undir það síðasta, þegar fylgið flaug í háloftunum og lýðræðisbylting með nýrri stjórnarskrá virtist handan við hornið, stóð ég mig hins vegar að dálitlu sem ég staldraði við. Ég var kominn í bullandi ritskoðun á sjálfum mér – farinn að gera óþarfa málamiðlanir við ýmis sjónarmið og áherslur sem voru og eru ekki áherslur Pírata, hvort sem það var í málefnavinnu eða skoðanaskiptum á samfélagsmiðlunum. Auðvitað hafði ég ágætisréttlætingu á því – það mátti ekki fæla í burtu þetta mikla fylgi sem við fengum (ekki). Nú má ekki misskilja mig – málamiðlanir eru nauðsynlegar í pólitík, en við gerum málamiðlanir við aðra flokka út frá okkar stefnu – eftir kosningar. Ég var ekki einn um þetta – Lækjarbrekkufundurinn, pælingar um kosningabandalag og fyrirfram útilokun einhverra valkosta, er ekki í anda Pírata. Flokkurinn sem ég gekk í skömmu eftir stofnun hans, flokkur sem vildi skoða ágæti hugmynda út frá eigin gildi, ekki út frá því hver setti þær fram, hefði aldrei tekið slíkt í mál. Þetta útspil var gamaldags pólitík, óþarfa málamiðlun, örvæntingarráð til að halda í dvínandi fylgi sem við vorum (ekki) með.

Ég skrifaði grein fyrir kosningarnar í fyrra þar sem ég nefndi að 12-15% fylgi væri eðlilegt fylgi Pírata, miðað við frjálslyndan, prógressívan flokk eins og ég tel að við eigum að vera. Að minnsta hef ég engan áhuga á að vera í einhverri breiðfylkingu málamiðlana, eins og t.d. Samfylkingin var hönnuð til að vera. Sem slík getum við haft mun meiri áhrif en fylgið segir til um. Ef við skoðum t.d. samstarfssamning meirihluta flokkanna sem stýra borginni, þá eru spor okkar Pírata þar mun stærri en fylgi okkar og einn borgarfulltrúi segir til um.

Fyrir komandi kosningar núna erum við allt annarri stöðu en í fyrra. Síðasta mæling, er þessi orð eru skrifuð, sýnir um 10% fylgi. Ég held að það sé ágætis tækifæri falið því; að við skerpum á því hver við erum, hvað við stöndum fyrir, frjálslyndur, alþjóðlegur, prógressívur flokkur gegnsæis og borgararéttinda.

Ég er mjög sáttur við missi atkvæða rasistanna, eða annarra sem aðhyllast einangrunarhyggju, atkvæði þeirra sem trúa á einfaldar popúlískar lausnir í stað kerfisbreytinga og breyttrar aðferðarfræði, atkvæði þeirra sem þora ekki að líta til framtíðarinnar og ríghalda í fortíðina. Ég vil atkvæði hinna – þeirra sem vilja hið gagnstæða.