logo_pirataÍ mínum huga markaði það upphaf kosningabaráttunnar fyrir alþingiskosningarnar í haust þegar Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, fullyrti að Píratar þyrftu að fara að taka afstöðu til þess fyrir hvað þeir stæðu, hvort þeir væru til hægri eða vinstri. Áhugavert innlegg frá Katrínu, sem stökk fram sem nýbakaður varformaður VG fyrir 14 árum og talaði um að þörf væri á nýrri orðræðu í íslenskri pólitík.

Það bólar þó ekki á þeirri orðræðu, alltént ekki hjá VG, sem virðast enn horfa á heiminn í gegnum tvívíddargleraugu sem sjá bara hægri og vinstri þegar þrí- eða fjórvídd er í boði. En baráttan er byrjuð og það eiga sjálfsagt eftir að fljúga fleiri svona skeyti í slagnum um hver fær öflugasta umboðið til pólitískrar tiltektar á Íslandi.

Fylgi Pírata var komið á flug löngu fyrir daga Panama-skjalanna, mörgum, ekki síst okkur sjálfum, til mikillar undrunar. Gunnar Smári Egilsson orðaði það svo fyrir um ári: „Hvort sem Pírötum líkar það vel eða illa, þá hafa kjósendur falið þeim nýtt hlutverk; að leiða baráttu þeirra sem hafa misst trú á kerfið; baráttu fyrir djúpstæðum kerfisbreytingum í samfélaginu sem miða að meira réttlæti og öryggi venjulegs fólks.“

Píratar hafa samþykkt að setja fram sem meginkröfu, fái þeir til þess umboð, að samþykkt verði ný stjórnarskrá, byggð á þeim drögum sem þjóðin kaus um 2012, ásamt því að kosið verði um hvort halda eigi áfram aðildarviðræðum við ESB. Meginþunginn á bak við kröfuna um nýja stjórnarskrá er krafan um aukið lýðræði og að tryggja yfirráð almennings yfir auðlindum landsins, en auk þess hafa atburðir liðinna vikna leitt í ljós ágalla í skilgreiningum núverandi stjórnarskrár á hlutverki forseta og tilhögun forsetakosninga. Þar hefði ný stjórnarskrá stjórnarskrárnefndar sett mun skýrari línur.

Panama-skjölin hafa verið fyrirferðarmikil í umræðunni síðustu daga og þar hafa talsmenn VG stigið fram og staðið sig vel í gagnrýni sinni á stjórnarliða. Það kunna þau vel og hafa oft sýnt það – í gegnum tíðina hefur öflugasta stjórnarandstaðan einatt verið af hálfu VG. Það skýrir líka mikinn kipp í fylgi þeirra í skoðanakönnunum undanfarið. En hvað svo? Hvaða leiðir og áherslur bjóða VG upp á til að leysa þann rembihnút sem íslensk stjórnmálamenning, og þ.a.l. íslenskt samfélag, er föst í? Hæfileikinn til að vera á móti er lítils virði á valdastóli.

Ef undanskilið er auðlindaákvæðið, hefur áhugi VG á nýrri stjórnarskrá virst frekar takmarkaður. Talsmenn flokksins hafa ekki sýnt mikinn áhuga á beinu lýðræði – maður hefur á tilfinningunni að þau treysti fólki ekkert sérstaklega vel til að ráða málum sínum sjálft. Viðbrögð þeirra, eða kannski frekar skortur á þeim, gagnvart svikum stjórnarflokkanna um að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður við ESB, eins og þeir lofuðu, segja líka sína sögu.

Hinn þungi pólitíski undirtónn í samfélaginu var til staðar löngu fyrir Panama-skjölin – og er það enn. Hann er ákall um djúpstæðar kerfisbreytingar, nýjar leikreglur og nýja orðræðu. Nýja orðræðu um lýðræði, jöfnuð – en líka um það hvernig við ræðum átakalínur stjórnmálanna.

Það segir ekkert um Pírata hvort þeir kalli sig vinstri eða hægri í þokukenndu landslagi gamalla skilgreininga. Hins vegar segði það heilmikið um VG ef þeir skýrðu fyrir okkur afstöðu sína til stórra grundvallarspurninga sem samtíminn spyr og snerta beint lýðræði og endurheimt auðlinda landsins.

Greinin birtist í Kvennablaðinu þann 10. mai 2016