Í umræðu um útfærslu á sjávarútvegsstefnu Pírata á spjallþráðum hefur gætt ýmissa sjónarmiða, ekki síst hvað varðar uppboðsleiðina. Þar hef ég rekist á ýmis sjónarmið, allt frá fyrningarleiðinni svokölluðu, sem Samfylkingin setti upphaflega fram og gerir ráð fyrir að 4% kvóta fari á markað árlega í alls 25 ár, til þess að allur kvótinn verði tekinn strax og settur á markað og allt þar á milli.

Nú hef ég enga skoðun á því hvort fara eigi út í slíka útfærslu í smáatriðum. Það er ólíklegt að Píratar nái meirihluta á þingi svo að endanleg útfærsla verður hluti málefnapakka nýrrar ríkisstjórnar. Aðaláhersla Pírata verður að sjálfsögðu að koma stjórnarskrárbreytingum í gegnum þingið á sem stystum tíma, en það útilokar ekki að hægt verði að taka fljótt fyrstu skrefin í átt til breytinga á úthlutun aflaheimilda.

Hvað varðar umræður um þessar leiðir sem nefndar voru hér; fyrningarleiðin, „tafarlausu leiðin“ eða eitthvað þar á milli, þá má segja eftirfarandi:

Það er auðvelt að komast að þeirri niðurstöðu, yfir latte-bolla á kaffihúsi í 101 Reykjavík, að sjálfsagt sé að taka tafarlaust allan kvóta og bjóða hann upp. Þessi útgerðarmafía eigi ekkert annað skilið, hún hafi beitt ofurhagnaði sínum, sem hún fær í gegnum nánast ókeypis aðgang að auðlindinni, til að kaupa sér fjölmiðla og pólitíska fulltrúa sem hafa viðhaldið forréttindastöðu sinni.

Þetta er umræða sem ég hef oft tekið þátt í og verið sammála mörgu.

Veruleikinn er þó sjaldnast svart-hvítur. Talsmenn núverandi kerfis hafa bent á að kvóti í botnsjávarfiski, eins og þorski og ýsu, hafi skipt að miklu eða mestu leyti um hendur og handhafar kvótans í dag hafi greitt fyrir hann – þeir hafi aldrei fengið neitt ókeypis. Þessi fullyrðing stendur reyndar sumpart á veikum grunni, þar sem vísað er m.a. í ýmis konar sameiningu og yfirtöku, þar sem ekki var um raunveruleg kvótakaup að ræða – nokkuð sem mætti skoða nánar. En þó er ljóst að þetta er rétt að miklu leiti. Kaffihúsaspekingarnir myndu væntanlega svara því til að kaupendur kvóta geti sjálfum sér um kennt, þeir hafi vitað að ekki var um varanlega eign að ræða og pólitískt ósætti hafi ríkt um málið í áraraðir.

Gott og vel – við teljum okkur, fyrir hönd almennings, hafa fullan rétt á því að taka allan kvótann á einu bretti og útdeila honum í gegnum uppboð. Án vafa yrði málið sett í dóm sem færi í gegnum bæði dómstigin. Og þótt kaffihúsaspekingarnir séu kokhraustir er engin trygging fyrir því að ríkið slyppi frá slíku máli bótalaust. Reyndar finnst mér mjög ólíklegt að dómur í slíku máli yrði svart-hvítur, öðrum aðilanum í dag. Lögfróðari menn geta kannski sannfært mig um annað.

Hluti hinnar svart-hvítu myndar er ákveðin skrímslvæðing útgerðarstéttarinnar. Að skrímslavæða andstæðinga sína, hvort sem það eru fylgjendur islam, góða fólkið, rasistar eða útgerðarmenn, einfaldar tilveruna, leyfir okkur að hafa einfaldar og þægilegar skoðanir.

Flóknari myndin er hins vegar þessi: Fjöldi aðila hefur farið út í útgerð á undanförnum áratugum, byrjað frá grunni og keypt sér kvóta og átti engan annan kost í stöðunni. Þeim stóð eingöngu til boða að sækja sjó á forsendum þess kerfis sem hefur verið til staðar. Og hver ber ábyrgð á því kerfi? Auðvitað stjórnmálamenn fyrst og fremst. Og þótt ljóst sé að fjöldi stjórnmálamanna og heilu flokkarnir séu handbendi þess sem áður hét LÍÚ, þá hefur kerfið fyrst og fremst þjónað þeim sem áttu kvóta fyrir, ekki þeim sem komu nýir að greininni og þurftu að kaupa sig inn.

Er þá sjálfgefið að stjórnvöld geti fríað sig af allri ábyrgð á ástandi mála? Getur ný ríkisstjórn og nýtt þing þvegið hendur sínar af stöðu þessara einstaklinga og fyrirtækja? Ef svarið er nei, þarf einhvers konar aðlögun, mögulega einhvers konar fyrning, að koma til.

Þar að auki má velta fyrir sér afleiðingum þess að ganga of hart fram. Fyrirtæki sem eru mikið skuldsett vegna kvótakaupa, sem hefur verið dýrasti þátturinn við að fara í útgerð, eiga litla möguleika á að keppa við ný, skuldlaus eða lítið skuldsett fyrirtæki í uppboði á kvóta. Flest þeirra myndu líklega fara á hausinn.

Gott og vel, segja kaffihúsaspekingarnir, það er hluti af frjálsum markaði að fyrirtæki fari á hausinn. Það eru helst bankarnir sem tapa (sem núna eru reyndar að mestu í ríkiseigu). Jú, og fjöldi fólks sem hefur lagt út fé og jafnvel veðsett heimili sín til að fara af stað í útgerð.

Mesti skaðinn yrði mögulega sá að fjöldi duglegra og framtakssamra einstaklinga, hluti af lífsblóði landsbyggðarinnar, féllist hendur og gæfist upp ef kippt væri svo snöggt fótunum undan afkomu þeirra.

Ég sé aftur á móti enga ástæðu fyrir því að draga á langinn að setja uppsjávarveiðikvóta á markað. Kvóta á makríl mætti t.d. setja á markað tafarlaust, sá kvóti hefur ekki skipt um hendur svo neinu nemur. Þá hefur að ég best veit verið minna um viðskipti með kvóta í síld og loðnu í gegnum tíðina, sem þýðir að réttlæting fyrir löngum aðlögunartíma er ekki til staðar.

Burtséð frá því hver nákvæm útfærsla verður þá skiptir miklu máli að byrja sem fyrst. Þegar kominn verður á uppboðsmarkaður, fyrir þó ekki sé nema nokkur þúsund tonn af þorski, verða enn meira æpandi þeir annmarkar og það óréttlæti sem fylgja núverandi kerfi og þá verður ekki aftur snúið.

Greinin birtist í Kvennablaðinu þann 14. apríl 2016