Það er ákveðin þverstæða falin í því að alþingi skuli eiga síðasta orðið í að staðfesta nýja stjórnarskrá, þótt sú stofnun og stjórnmálaflokkar almennt séu í raun vanhæf til að eiga lokaorð um plagg sem fjallar um þessar stofnanir og setur völdum þeirra og áhrifum skorður. Síðasta ríkisstjórn, að frumkvæði Jóhönnu Sigurðardóttur, leit a.m.k. svo á og setti því af stað það ferli sem hafði verið undirbyggt með þjóðfundunum 2009 og 2010 með því að láta kjósa til stjórnlagaþings 2010 og þjóðaratkvæðagreiðslu um drögin 2012. Alþingi átti samkvæmt því eingöngu að veita frumvarpi um nýja stjórnarskrá formlega afgreiðslu en ekki breyta neinu efnislega.

Vanhæfi alþingis má segja að sé tvíþætt. Í fyrsta lagi hvað varðar valdsvið þess. Málskotsréttur almennings, að ekki sé minnst á ákvæði um að almenningur geti átt frumkvæði að því að koma málum á dagskrá, dregur úr völdum þingsins og það er tilhneiging í öllum stofnunum að reyna að halda í áhrif og völd.

Þetta sást berlega í þeirri stjórnlaganefnd sem núverandi ríkisstjórn skipaði – síðustu drög hennar þrengdu verulega að möguleikum almennings til að hafa áhrif í gegnum málskotsrétt með hærri þröskuldum en í heildardrögum að nýrri stjórnarskrá, auk þess sem frumkvæðisákvæðið var ekki einu sinni tekið til umræðu.

Færa má rök fyrir því að það ákvæði sé jafnvel enn mikilvægara en það neitunarvald sem málskotsrétturinn veitir, því hann gefur almenningi tækifæri til að koma málum á dagskrá. Markmið stjórnarskrárnefndar núverandi meirihluta var að ná samstöðu allra stjórnmálaflokka um mjög takmarkað upplegg, en vanhæfi alþingis gat varla leitt til annars en þeirra útþynntu draga sem nú liggja fyrir.

Í öðru lagi setur stjórnaskráin allri löggjöf takmörk og engin lög geta farið á svig við stjórnarskrá. Stjórnmálaflokkar hafa ýmsar stefnur og hagsmuni sem orðalag stjórnarskrár getur hentað misvel, en það skapar líka vanhæfi. Dæmi um slíkt er orðalagið í auðlindaákvæði í heildardrögum að nýrri stjórnarskrá þar sem kveðið er á um „fullt gjald fyrir aðgang að auðlindum…“.

Í meðförum stjórnlaganefndar þessa meirihluta verður það að „eðlilegu gjaldi…“ sem er mun óljósara orðalag og betur sniðið að þeirri orðræðu sem notuð hefur verið til að réttlæta núverandi fyrirkomulag á útdeilingu veiðiheimilda við Ísland. „Eðlilegt gjald…“ hentar einfaldlega betur þeim hagsmunum sem ríkisstjórn og núverandi meirihluti á alþingi þjóna, á meðan erfitt er að túlka „fullt gjald“ sem annað en markaðsgjald.

Þetta þýðir að þótt við Píratar teljum okkur hafa fullt af góðum hugmyndum og athugasemdum um stjórnarskrána, þá erum við stjórnmálaflokkur með þingflokk og því jafn vanhæf og aðrir stjórnmálaflokkar í efnislegri umfjöllun um hana. Ef við viljum hafa áhrif á stjórnarskrána getum við sem einstaklingar tekið þátt í þjóðmálaumræðunni, gengið í Stjórnarskrárfélagið og boðið okkur fram til stjórnlagaþinga framtíðarinnar. Allt ferlið var líka í fullkomnu samræmi við aðferðafræði okkar Pírata: Ef ferlið er rétt, þá er niðurstaðan rétt. „Rétt“ þýðir ekki fullkomið en í þessu tilfelli fól ferlið í sér tvo þjóðfundi, almenna kosningu á hópi fólks sem skrifaði drög sem voru efnislega staðfest í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Við þá sem segja að samkvæmt núverandi stjórnarskrá sé þetta í höndum alþingis, og því beri alþingi að fjalla efnislega um hana, vil ég segja: Þegar fólk víkur úr sæti eða situr hjá við atkvæðagreiðslu við hinar ýmsu aðstæður, þýðir það ekki endilega að viðkomandi sé vanhæfur í þrengsta skilningi laganna. Það er ekki síður siðferðileg afstaða, þar sem viðkomandi veit af vanhæfi sínu og tekur ábyrgð á því.

Sem frambjóðandi í prófkjöri Pírata í Reykjavík lýsi ég mig vanhæfan til þess að fjalla efnislega um nýja stjórnarskrá á vettvangi alþingis – mér ber hins vegar að veita stjórnarskrá sem hefur orðið til í réttlátu ferli brautargengi.

Birt í Kvennablaðinu 1. ágúst 2016